Fréttir Ergo

Rúmlega 9 af hverjum 10 ferðavögnum eru hjólhýsi

Það sem af er ári 2017 hafa 93% allra innfluttra ferðavagna verið hjólhýsi. Hér fyrir neðan má sjá að mestur hluti sölunnar á sér stað í maí og júní en skráning ferðavagna í þeim mánuðum var nánast jöfn öllu árinu 2016. Í þessu samhengi verður þó að taka fram að skráning á ferðavögnum er sáralítil öllu jafna á seinni hluta árs og líklegt að það verði eins á seinni helmingi árs 2017.

Á fyrri helming ársins 2017 hafa verið fluttir inn til landsins 466 ferðavagnar en þeir skiptast í þrjá flokka, þ.e. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Óhætt er að segja að hjólhýsi séu nú vinsælust þar sem 435 af 466 þeirra ferðavagna sem fluttir hafa verið inn á fyrstu sex mánuðum ársins eru hjólhýsi. Þar af eru 368 sem eru skráð ný og 67 skráð notuð.

Þrátt fyrir það að Íslendingar sækist nær eingöngu eftir hjólhýsum í dag hefur það ekki alltaf verið þannig. Framan af voru tjaldvagnar nánast eini ferðavagninn sem notaður var á landinu en um 1995 fara fellihýsi að sjást á þjóðvegum landsins. Það er ekki fyrr en rétt um 10 árum seinna, eða um 2005 sem að sprengja verður í innflutningi á hjólhýsum og má segja að eftir það hafi hnignun tjaldvagna hafist, enda erfitt fyrir þá að berjast við bæði felli- og hjólhýsi. Eftir síðustu niðursveiflu hafa þó vart verið flutt inn fellihýsi til landsins en ber þar helst að nefna að fellihýsi hafa nálgast hjólhýsi í verði auk þess sem fellihýsi koma frá Bandaríkjunum þar sem evrópsk reglugerð gildir ekki og þarfnast því ákveðinnar yfirhalningar við komu til landsins sem hækkar verðið enn frekar.

Hér að neðan má sjá árgerðir ferðavagna í sögulegu samhengi. Vert er að taka fram að þetta endurspeglar ekki sölu á hverju ári þar sem í þessum tölum eru upplýsingar um nýja og notaða vagna. Vagn sem er árgerð 2010 og merktur í súlunni 2010, getur verið notaður og fluttur inn árið 2012. Upplýsingar fyrir 2017 eru sérstaklega merktar en sú súla endurspeglar nýja ferðavagna sem hafa verið skráðir á árinu.

Á Íslandi voru tjaldvagnar algengastir fram til áranna 1994-1995 en þá fóru fellihýsi að ryðja sér rúms. Hjólhýsin mættu svo til leiks frá 2002 og verður mikill samdráttur í tjaldvögnum frá þeim tíma en á árunum eftir hrun og til dagsins í dag virðast hjólhýsi vera sú vara af þessum þremur sem ætlar sér að verða vinsælust á markaðnum. Ergo gerir ráð fyrir hóflegum vexti það sem eftir lifi árs þar sem skráning hjólhýsa er að mestum hluta á fyrstu sjö mánuðum hvers árs.

Sala húsbíla hefur aukist um 30%

Þrátt fyrir að árið sé aðeins hálfnað hefur sala húsbíla aukist um tæp 30% frá öllu síðasta ári. Hafa ber þó í huga að árið 2015 var töluvert stærra en 2016 og er 8% aukning milli áranna 2015 og 2017. Þessi markaður er drifinn áfram af bílaleigum og hefur verið allt frá hruni en aðeins um 6% húsbíla sem fluttir hafa verið inn í ár eru ekki að fara í útleigu.

Höfundur: Jóhann Einarsson, ráðgjafi fyrirtækja hjá Ergo

Aðrar fréttir